BNA – Ísland – ESB

 
ekki útrás – heldur heimboð
Skjal til lestrar: 2 síður, 156k – Skjal til útprentunar: 2 síður, 148k
Sú var tíðin að forfeður okkar voru ráðandi afl á Norðuratlandshafinu og langt suður í lönd. Útrás þeirra var herská og markviss. En við, úrkynjaðir afkomendurnir, klúðrum nú einföldum málum með innihaldslausum rökum, allt í skjóli hughyggju sem við köllum lýðræði. Þingkonur fella tár í ræðustólum yfir hvað uppblásin moldarbörð eru í raun mikið fallegri en stíflur, jafnvel þótt þær séu vel byggðar og arðbærar. Og forystusauðir rjúka í hár saman útaf því hvort seðlabanki á að vera minni eða stærri en útrásarbankar. Í ringulreiðinni leitum við skjóls í handarkrikum þeirra, sem báru fyrir okkur óttablandna virðingu þegar við vorum og hétum. Svona fór um sjóferð þá.
En frændi minn Ingvar Gíslason––fyrrum alþingismaður Framsóknargflokksins og ráðherra menntamála––skrifaði nýverið grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni 'Ávísun á skerðingu fullveldis'. Greinin vakti mig til umhugsunar. Ég veit ekki hvernig það var með frænda minn, en ég var kominn undir tvítugt þegar mér varð ljóst að á Íslandi voru gefin út fleiri dagblöð en Tíminn. En Framsóknarflokkurinn, elsti stjórnmálaflokkur landsins, er nú orðinn ónýtur og því má henda honum í ruslið, bara eins og lesnu dagblaði. Þó þarf að tryggja að úreltir stjórnmálaflokkar fari ekki í endurvinnslu, heldur verði urðaðir (skilgreiningar Sorpu). Og eins fer fyrir öðrum flokkum, sem ráfa nú um í hugmyndafræði liðinna tíma og ná ekki áttum á nýrri öld. Sagan sýnir að ekkert í þessum heimi er eilíft––síst af öllu stjórnmálaflokkar––og margt bendir til að tími sé kominn á Íhaldið líka. Og ekki verða vinstri öflin gömul heldur; svo mikið er víst.


Singapore – naflinn í Suð-Austur Asíu
(sláðu á myndina til að stækka hana)

Ég bjó í allmörg ár í Austurlöndum Fjær og lengst af í Singapore. Þar réði ríkjum mikill forkólfur að nafni Lee Kuan Yew. Eyjan hans er lítil; aðeins 50 kílómetra löng og 25 kílómetra breið, í laginu eins og tígull á hliðinni (mynd). Hún er 600 ferkílómetrar að flatarmáli og hýsir þrjár milljónir þegna. Til samanburðar er Ísland 100.000 ferkílómetrar að flatarmáli––heilum 167 sinnum stærra en Singapore––en hýsir bara 300.000 manns, einn-tíunda hluta íbúafjölda eyjarinnar. Nokkru áður en ég flutti til Singapore hafði Kuan Yew, nýkominn frá námi í landi Breta, 'sannfært' húsráðendur sína––nefnilega bresku nýlendustjórnina––að best myndi að þeir færu heim til sín. Bretarnir féllust á þetta, en í hverju 'sannfæringin' fólst er önnur saga og efni í þykka bók.
Þegar Kuan Yew tók við eyjunni var hún bláfátæk. Þar voru engin auðæfi í jörðu––ekki einusinni drykkjarvatn––og neyddist Kuan Yew til að leita á náðir nágranna sinna, Malaysíu, sem lögðu til hans rör meðfram brúnni frá Johore Baru svo hann hefði að minnsta kosti vatn að drekka. Ekkert land var á eyjunni til ræktunar og hér var úr vöndu að ráða. Afla varð hrísgrjóna í milljónir munna og Indónesía––hrísgrjónaframleiðandi á heimsmælikvarða steinsnar hinumegin við sundin––vildi fá greitt fyrir hrísgrjónin sín. Kuan Yew var ljóst að þessu varð að breyta, og það hið snarasta. Og verðmætin, sem hann hafði til að versla með, voru Kínverjar, vinnugefnir eins og maurar, en ómenntaðir. Á þessum árum var tæknivæðing á svæðinu skammt á veg komin, því nýlendutímarnir voru rétt að enda. En hinumegin við sundin bjó öðruvísi fólk, sem lagði stund á trú og hefðir og fannst óttalegt ónæði þegar reynt var að láta það vinna.BNA – Ísland – ESB ... síða 2
www.ingvar.is
Hér sá Kuan Yew sér leik á borði og lét boð út ganga: 'Við skulum vinna fyrir ykkur á meðan þið dýrkið guðina ykkar'. Meðvitaður um sérstöðu eyjarinnar––miðja vegu á milli hundlatra stórþjóða, hvert sem litið var––tók hann til við að þróa Singapore sem nafla fyrir svæðið á sviðum viðskipta og iðnaðar. Hann kallaði erlenda fjárfesta og iðnjöfra á sinn fund og seldi þeim hugmyndina. Áður en varði hafði Kuan Yew byggt fullkomnustu umskipunarhöfn í heimi, búna tölvustýrðum löndunar- og hleðslubúnaði. Séð ofan frá sjötugustu hæð í nálægu háhýsi minnir þessi höfn á sýningarglugga í leikfangaverslun. Um allangt skeið eftir þetta fóru þungaflutningar til og frá Evrópu og Bandaríkjunum um Singapore, en dreifing og söfnun til frá höfnum nágrannalandanna á strandsiglingum. Skipstjórar á hraðskreiðum flutningaskipun gátu einfaldlega ekki beðið á meðan annars hugar embættismenn klóruðu sér á ónefndum stöðum.


Ísland – naflinn í Atlantshafinu
(sláðu á myndina til að stækka hana)

Bandaríki Norður-Ameríku (BNA) eru enn stóri fíllinn, sem Pierre Trudeau fannst á sínum tíma ískyggilegt að sofa hjá, og Evrópusambandið (ESB) er nú óðum að mála sig út í horn með yfirbyggingu og reglugerðum. Við búum mitt á milli þessara klunnalegu bandalaga og má líkja þeirri stöðu við það, sem blasti við Kuan Yew þegar hann kom heim frá námi. Þessir nágrannar okkar eru að drukkna í formsatriðum, en í Suð-Austur Asíu voru aðal vandamálin leti og áhugaleysi; eðlismunur en ekki stigs. Væri fávíst að ljá máls á viðræðum um aðild að ESB við þessar aðstæður; því má líkja við að þegar börn sleppa takinu efst í rennunni við sundlaugina lenda þau óhjákvæmilega í vatninu.
Endasleppt endalok undangenginnar 'útrásar' þurfa ekki––og munu ekki––drepa í okkur allt framtak; við munum finna aðrar leiðir til að afla lífsviðurværis. Við róum þegar gefur; það höfum við gert frá upphafi. Sagan um Kuan Yew í Singapore lýsir mjög vel hvernig hann náði árangri með því að 'bjóða heim' í stað þess að 'rása út'. Þannig laumaði hann áhættunni við framkvæmdir í vasa 'heimboðinna gesta' og einskorðaði sína kaupsýslumennsku við að mynda aðstæður og búa í haginn heimafyrir.
Nágrannar okkar––BNA og ESB––eru hvergi nærri sjálfbærir og verða báðir að gera umtalsverð viðskipti út á við, jafnt sín á milli sem við aðra heimshluta. En þegnar þeirra þreytast í vaxandi mæli á höftum og skrifræði, sem þessu fylgja, og taka auðveldum lausnum opnum örmum. Við getum byggt fyrir þessi stirðbusalegu bandalög orkuver og fríhafnir og sent þeim reikninga fyrir leigunni. Við getum orðið að nafla í Atlandshafinu, þaðan sem gagnkvæm viðskipti færu fram––á alla vegu (mynd).
http://www.ingvar.is/Various/BNAislandESB/http://www.ingvar.is/Various/BNAislandESBwo.pdfhttp://www.ingvar.is/Various/GreinIG.pdfhttp://www.ingvar.is/Various/GreinIG.pdfhttp://www.ingvar.is/Various/Frammsokn.pdfhttp://www.ingvar.is/Various/UpphafEndaloka.pdfhttp://www.ingvar.is/Various/Nuerlag/Nuerlag.htmlhttp://www.ingvar.is/References/CVend06.pdfhttp://en.wikipedia.org/wiki/Singaporehttp://en.wikipedia.org/wiki/Lee_Kuan_Yewhttp://en.wikipedia.org/wiki/Malaysiahttp://en.wikipedia.org/wiki/Indonesiahttp://www.ingvar.is/Various//BNAislandESB//BNAislandESB_files/BNAislandESB.jpghttp://en.wikipedia.org/wiki/United_Stateshttp://en.wikipedia.org/wiki/Pierre_Trudeauhttp://www.ingvar.is/Various/DasVierteReich/DasVierteReich.htmlhttp://www.ingvar.is/Various/EU/EU.htmlhttp://www.ingvar.is/Various/RoumThegarGefurLR.pdfhttp://www.ingvar.is/Various/RoumThegarGefurLR.pdfhttp://www.ingvar.is/Various/Singapore.jpghttp://www.ingvar.is/Various/BNAislandESB.pdfhttp://www.ingvar.is/shapeimage_1_link_0shapeimage_1_link_1shapeimage_1_link_2shapeimage_1_link_3shapeimage_1_link_4shapeimage_1_link_5shapeimage_1_link_6shapeimage_1_link_7shapeimage_1_link_8shapeimage_1_link_9shapeimage_1_link_10shapeimage_1_link_11shapeimage_1_link_12shapeimage_1_link_13shapeimage_1_link_14shapeimage_1_link_15shapeimage_1_link_16shapeimage_1_link_17shapeimage_1_link_18