LogoIngvar
(sláðu á skiltið (logo)
til að fá lífshlaup (CV) höfundar)

Ingvar skrifar

Das Vierte Reich*)

Grein þessi birtist í Tímanum 14. apríl 1994. Eg rakst á hana fyrir skemmstu (nóvember 1995) á meðal gamalla gagna, og þegar ég las hana aftur virtist mér boðskapur hennar eiga jafn mikið erindi til Íslendinga nú og áður. Því er hún hér - endurskoðuð og lítið eitt stytt. Greinin er skrifuð í tíð Jóns Baldvins Hannibalssonar sem utanríkisráðherra og helguð þeirri stefnu, sem hann markaði í utanríkismálum. Einginn er neyddur til að lesa greinina, en þeir sem það gera ættu að staldra örstund við og reyna að gera sér grein fyrir hvað hér er á ferð. - höf


Í dag heitir það Evrópusambandið; Europäische Union (EU). Upphaf þess má rekja til bandalags, sem ríki á norðvestanverðu meiginlandi Evrópu, standandi í hné í hálfstorknuðum blóðpolli heimsstyrjaldarinnar síðari, stofnuðu til að standa vörð um úreltan kola- og stáliðnað á svæðinu - nefnilega ECSC (European Coal and Steel Community eða Europäische Stahl und Kohle Union). Þá ógnaði snyrtileg hátækni Bandaríkjamanna þessum klunnalegu verksmiðjum, sem kunnu fátt annað en að renna fallbyssuhlaup og steypa hlekki í skriðdrekabelti og gátu ekki lagað sig að þörfum friðartímanna. Því friðartímar eru auðvitað ekki annað en tímabilin á milli styrjalda - leiðinlegir, líkt og dagarnir milli jóla og nýárs.

En síðan hefir margur þorskurinn verið dreginn úr sjó og ECSC hefir átt í óteljandi tilvistarkreppum þar til það varð að EU. Ógnun Ameríku við þessi úreltu vopnaver Evrópu var leyst af hólmi af ástundununarsömum þriðja heimi, sem nú hefir gengið af stáliðnaði beggja heimsálfanna hartnær dauðum. En ófétið skiptir um lit líkt og kameljón og nöfn rétt eins og mafíuforingi, svo að einginn einn maður hendir í dag reiður á hvað þarna hefir átt sér stað á síðustu áratugum. Öll eiga þessi hamskipti rætur að rekja til innanhússvanda aðildarríkjanna, sem hafa hrært upp í hefðum og þjóðernum meginlandsins með reglubundnum styrjöldum um aldaraðir.

Þannig samanstendur Evrópa í dag af þúsundum tvístraðra þjóðarbrota, sem flest vilja ráða hvert fyrir öðru og öll fengu blóðhefnd í arfleifð. Óttinn við það sem skeð getur í þessari púðurtunnu hræðir þá sem með völd fara til fálmkenndra aðgerða. Á meðan ekki er um aðrar og betri hugmyndir að velja er gripið til þess, sem hendinni er næst, jafnvel þótt þar sé um úrelt félagsform að ræða. Og allt skeður þetta undir breiðtjaldi, þar sem hrun Sovétríkjanna blasir við, en einginn sér þar víti til varnaðar. Eitt er þó víst, nefnilega, að ekkert af þessu kemur okkur Íslendingum við. Þetta eru ekki okkar vandamál.

Fáni Evrópusambandsins
Leggst hann yfir íslenska fánann?

Evrópusambandið er hræðslubandalag þjóða, sem hræðast hver aðra, en þó mest af öllu sjálfar sig og fortíð sína. Í öngþveitinu missa menn sjónar á sjálfum vandanum. Hagræn forgangsmál víkja fyrir félagslegum gæluverkefnum. Menn fyllast mikilfengleika og finnst þeir stýri atburðarásinni með því að taka sér mannaleg orð í munn; Maastricht, GATT, tollamúrar, úrlausnir, framtíðarsýn, viðskiptasamningar. Þó er staðreyndin sú að ef við erum jafn afbragðs góð og við viljum vera láta (tærasta vatnið, hreinasta loftið, fegursta landið, stærsti þorskurinn, langbesta lambakjötið) eiga óverulegar viðskiptahindranir ekki að vera slíkt stórmál fyrir okkur. Það er líka staðreynd að öll viðskipti leita að innbyrðis jafnvægi. Ef því er raskað myndast einfaldlega nýtt jafnvægi, sem hefir sínar neikvæðu hliðar rétt eins og hið fyrra.

En á meðan hnútarnir eru reyrðir í Evrópusambandinu vinna öfgaöfl stórsigra um svæðið þvert og endilangt. Fyrst var það rússneskur ofdrykkjumaður, sem minnir helsti um of á Adolf Hitler til að mönnum standi á sama, og vefst nú fyrir mörgum stjórnmálamanninum að verja einfeldnisumsagnir um viðburðarásina í gömlu Sovétríkjunum fyrir kjósendum. Á dögunum fylgdi svo annað kjaftshögg - á Ítalíu, léttari enda möndulsins góða **). En gamanið kárnar því þessum öflum er spáð enn einum sigrinum - í næstu þingkosningum í sameinuðu Þýskalandi, þyngri enda möndulsins - á kostnað þeirra sem nú ráða í Evrópusambandinu. Menn eru mátulega búnir að brjóta brýrnar að baki sér.

Hakakrossinn - þýski þjóðfáninn 1939 til 1945
Heimild: Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur 1990.

Nú spyr sá sem ekki veit hvort verið geti að við höfum bara ekki skilið hvað Adolf var að fara á sínum tíma. Ef marka má af því hvernig Austurríkismenn grétu gleðitárum yfir að fá nú loksins að vera aftur með Þjóðverjum eftir áratuga aðskilnað og hvernig Norðmenn frændur okkar bíta neglur sínar upp í kviku þar til þeir fá að færa velgjörðamönnum sínum í soðið ***) mætti halda að við höfum lent í þessum illindum við Adolf af einskærum asnaskap. En það voru einmitt þessar tvær þjóðir, sem honum var hvað mest uppsigað við sakir þrjósku þeirra.

Nú er það svo að stjórnmál á alþjóðavettvangi eru háð hagsmunum þeirra embættismanna, sem með þau fara. Þarna er um að ræða hálaunuð störf, fríðindi, samkvæmislíf, 'jetsetting' og spennu. Hver vill ekki vera með í slíkum klúbbi? Þeir sem til þekkja vita vel að líf þetta er vanabindandi og að sérhver alþjóðlegur stjórnmálamaður er í raun vanhæfur - rétt eins og dómari, sem látinn er víkja vegna hagsmunatengsla sinna við málin á dagskrá. Þannig erum við ofurseld 'internationalistum', sem nærri liggur að hugsi fyrst um eigin hag - síðan okkar.

En hvað getum við gert? Lýðræði er eina formið á meðferð þessara mála, sem við eigum tiltækt, og því er okkur nauðugur sá kostur einn að treysta kjörnum fulltrúum okkar. Ef þeir bregðast getum við að vísu bundið þá á höndum og fótum, fleygt þeim út í áralausan árabát, ýtt frá og látið þá reka á haf út með sjávarföllunum, en á því stigi málsins gæti allt verið um seinan.

*) Fjórða ríkið, samanber Þriðja ríkið (á þýsku: Das Dritte Reich): Þýskaland á stjórnarárumn nasista 1933-45. Heilaga rómverska keisaradæmið (962-1806) taldist þá fyrsta ríkið og Þýska keisaradæmið (1871-1918) annað ríkið. Heimild: Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur 1990.

**) Öxulríkin eða Möndulveldin, Öxullinn Berlín-Róm(-Tókíó), Öxulveldin: bandalag Þjóðverja, Ítala og Japana gegn Bandamönnum í síðari heimstyrjöld; upphaflega bandalag Þjóðverja og Ítala 1936 og andkommúnistabandalag Þjóðverja og Japana sama ár; urðu þríveldabandalag með samningi ríkjanna 1940. Heimild: Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur 1990.

***) Síðan greinin var skrifuð hafa Norðmenn kosið að vera ekki með í Evrópusambandinu.

LogoIngvar
(sláðu á skiltið til að fara Heim)

Glósalir 7, íbúð 704 - 201 Kópavogur
SkrifborðIð: 5622524 - bréfsími: 5621592 - brjóstvasi: 8961892
tölvupóstur: ingvar@ingvar.is

Endurskoðað: 8/07/07 6:45