Ingvar skrifar um OmniCab - Mars 2006

Acrobat skjal til útprentunar (þrjár A4 blaðsíður, 2,3 MB)

Strætisvagnar eins og við þekkjum þá í dag urðu til við uppfærslu sporvagna til samræmingar við 'nútímaleg' sjónarmið þeirra tíma. En sporvagnar - 'street cars' á steypujárnshjólum og járnteinum - eru einskonar kaupstaðarútgáfa af sveitalegum járnbrautum, sem fundnar voru upp á nítjándu öld og fyrst dregnar af hestum. Í lok þeirrar aldar voru járnbrautir svo kolavæddar, og loks rafvæddar á síðari hluta aldarinnar sem leið. Að öðru leyti hafa þær lítið breyst frá upphafi.

Þróunarsaga þessa samgöngumiðils býr yfir eftirtektarverðum staðreyndum. Hún lýsir því hvernig ótaldar milljónir tonna af járni hafa gegnum árin verið grafnar úr jörðu sem málmgrýti og bræddar, steyptar, smíðaðar, sorfnar, rafsoðnar, renndar, skrúfaðar saman og loks málaðar - og að lokum úreltar og endurunnar. En mesta athygli vekur þó sú orka, sem brennt hefir verið við að drasla öllu þessu járni fram og til baka og upp brekkur - að ógleymdum bremsuklossunum, sem spænst hafa upp á leið niður brekkurnar með tilheyrandi ískri.

Síðari tíma uppfærsla sporvagna í strætisvagna á gúmmíhjólum hefir litlu breytt, nema ef vera skyldi að nú eyðileggur útblástur frá vélum þeirra, spænt gúmmí og uppurið bundið slitlag allt í kring um sig, að heilsufari farþega og annarra vegfarenda meðtöldu. Raunar eru leiðakort strætisvagna í dag ekki annað en járnteinakerfi sporvagna prentuð í lit - nútímaleg á sinn hátt, en löngu úrelt. Oftar en ekki eru færri en fimm farþegar í hverjum strætisvagni á leið um höfuðborgarsvæðið, en sjaldan fleiri en tíu og stundum einginn. Aðferðafræðin er frá liðnum öldum, en tuttugasta og fyrsta öldinn er - sem kunnugt er - gengin í garð.

... nútímaleg á sinn hátt, en löngu úrelt.

Hagkvæmni er fallegt orð, sem oft endurspeglar óskhyggju í stað staðreynda. Leiðinlegir hagfræðingar hampa beinhörðum tölum, en verða að láta í minni pokann fyrir léttvægri nýungafíkn og óréttmætri forgangsröðun. Þaulhugsuð raungildi - svo sem sæta- og stæðakílometrar, tonnkílometrar af járni og kílógrömm af eldsneyti á hvern nýttan farþegakílómeter - eru virt að vettugi, en óraunhæf umhverfissjónarmið, oftar en ekki hagsmunatengd, ryðja sér til rúms. Við þessi skilyrði stirðnar þjónustan, eins og best verður séð af áhugaleysi markhópanna.

Við þessar hugleiðingar setti að mér dapurð; trú mín á samfélagið beið hnekki og vonleysi greip mig. En ég tók gleði mína á ný þegar ég minntist hvernig Filippseyingar, sem ég bjó með í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar, leystu þennan vanda af alkunnri snilld sinni. Ég fer ekki út í aðferðafræði Filippseyinga, en bendi þeim sem vilja vita meira um hana, á að láta Google leita úti á Vefnum undir orðinu 'jeepney'. Nokkrum árum síðar átti ég svo leið um Teheran, höfuðborg Írans, en þar var í gangi áþekkt kerfi og í Filippseyjum, sem ég þó tímans vegna gat ekki skoðað nægilega vel, enda voru áhyggjur mínar af strætisvögnum þá mun minni en þær eru nú.

En ef ég læt hugann reika og læt mig engu skipta hverskonar hindranir - stjórnmálalegar, hagsmunalegar eða félagslegar - sé ég fyrir mér nýtískulegt 'state-of-the-art' samgöngukerfi, sem, auk höfuðborgarsvæðisins, myndi þjóna öllum þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og afmarkast að öðru leyti af Borgarnesi í norðvestri, Þingvöllum í norðaustri, Selfossi í austri, Stokkseyri í suðaustri og Þorlákshöfn í suðri. Kerfið myndi nýta alla hátækni, sem þekkt er í dag - rafræna sem vélræna - og miðlæg stjórnstöð, í líkingu við flugumferðastjórn Norðuratlantshafsins, myndi stýra því um GSM-kerfi, sem eru fyrir hendi - tuttugu og fjórar klukkustundir á dag alla daga ársins. Farþegar myndu finna heppilega þjónustu með rafrænu vasaáhaldi, sem allir gætu eignast endurgjaldslaust, og hægt yrði að velja þjónustu úr venjulegum farsíma, á sama hátt og svarað er úr slíkum síma í dyrasíma með skjásvörun. Fargjöld yrðu greidd með bankakorti - fyrirfram og rafrænt eins og greitt er fyrir tölvusamtöl á Skype - og alsjálfvirkt bókhald í stjórnstöð myndi skrá farna kílómetra hvers farþega og draga gjöldin af innistæðu hans.

Filippínskur 'Jeepney'

Leiðakerfið yrði sveigjanlegt og byggt upp af forgangsleiðum og hliðarleiðum, sem þó væru allar frávíkjanlegar. Samið yrði við skyndibitastaði, veitingahús, vídeóleigur og önnur þjónustufyrirtæki á öllu svæðinu um að hýsa skjái með upplýsingum um augnabliksstaðsetningu nálægra vagna og leyfa farþegum að bíða innandyra––líkt og stórmarkaðir hýsa afgreiðslur fyrir Póstinn. Hefðbundin biðskýli væru úr sögunni. Nákvæm staðsetning hvers vagns kæmi fram á skjáunum og þaðan - og reyndar hvaðan sem er - gætu farþegar tilkynnt viðkomandi vagnstjóra hvar þeir hyggjast stíga um borð. Stjórnstöð skráir beiðnina og ef farþeginn mætir ekki á tilteknum stað og tíma heldur vagninn einfaldlega áfram og staðfestir það rafrænt til stjórnstöðvar.

Vagnar í þjónustu væru á stöðugri hreyfingu. Ef of margir vagnar til að anna fyrirsjáanlegri þjónustu framundan eru á sömu leið getur stjórnstöð látið einn eða fleiri vagna bíða við einn eða fleiri skjái og geta vagnstjórar þá farið inn á krárnar og fengið sér kaffi - eins og vagnstjórinn ('Laddi') í Kalla-Kaffi gerði. Einnig getur stjórnstöð kallað vagnstjóra við kaffidrykkju til þjónustu á öðrum leiðum. Ef of fáir vagnar eru úti sendir stjórnstöð vagna að heiman út á svæði þar sem þeirra er þörf, en kallar vagna heim af svæðum þar sem minna er um að vera.

Ef gangandi væntanlegur farþegi veifar í vagn með vasaáhaldi sínu, sem hann hefir fært óska-áfangastað sinn inn á, og vagnstjórinn telur sig geta flutt farþegann áleiðis eða alla leið, gefur vagnstjórinn já-ljósmerki sem er innbyggt í vagninn, stöðvar vagninn og tekur farþegan upp, en gefur nei-ljósmerki og heldur áfram ef hann er á leið í aðra átt. Í Manila og Teheran varð ég vitni að slíkum samskiptum, þar sem vagnstjóri og væntanlegur farþegi hrópuðust einfaldlega á; innihald samskiptanna var hið sama og lýst er að ofan, en fjarskiptamiðillinn var annar.

Þörfin á mestu annatímum ákveður fjölda vagna í flotanum og þurfa nokkrir vagnar umfram þá sem eru í þjónustu að standa heima - tilbúnir, en aðgerðalausir. En varafloti krefst aukinnar fjárfestingar, mönnunar og viðhalds, og til að draga úr kostnaði getur stjórnstöð rekið leigubílaþjónustu með því að beina aðgerðarlausum vögnum í slík útköll, frá biðskjáum eða að heiman. Þar sem fullkomið stjórn- og fjarskiptakerfi yrði til staðar má ákveða stærð umframflotans eftir þörfinni fyrir leigubíla, og myndi hann þannig nýtast sem bæði varafloti og leigubílar.

Gengið yrði inn í þá og út úr þeim að aftan ...

Sérbúnir vagnar af þremur stöðluðum stærðum - til dæmis tólf, sextán og tuttugu sæta - væru vetnisdrifnir og búnir öflugri rafrænni fjarskiptastöð með ljósmerkjakerfi. Gengið yrði inn í þá og út úr þeim að aftan og farnir kílómetrar skráðir rafrænt á reikning hvers farþega á meðan hann er í vagninum. Greiðslur með lausafé, afsláttarmiðar og fríkort eins og þekkjast í dag væru úr sögunni. Allmargir framleiðendur ökutækja bjóða nú ýmsar gerðir skápbíla af heppilegri stærð og lögun fyrir þessa þjónustu, sem þeir myndu rífast um að fá að breyta og sérbúa.

Útrás íslenskra tölvufræðinga og samstarf þeirra við erlenda aðila sýnir ótvírætt að öll sú tækni, sem að ofan er lýst, er þekkt og mikið af henni sannreynt; einstaka þætti þarf þó að fínslípa og samræma hvern öðrum. Sem kunnugt er gefa hönnuðir hugmyndafluginu oft lausan tauminn og búa þá sjálfum sér til leikföng, sem þeir svo ekki hafa biðlund til að ljúka við, en við það fer kostnaður oft úr böndum. Því yrði hagsýni og einfaldleiki að ráða þessari ferð. Verkefnið má fjármagna með því að leggja hald á fjármuni Strætó og sumra annarra fyrirtækja, sem halda uppi áætlunarferðum og leigubílaþjónustu á svæðinu, ásamt öllum opinberum styrkjum, en til að fullnægja samkeppnisreglum yrðu sum þessara fyrirtækja að fá að halda velli.

Hugmyndin að sameiningu reksturs strætisvagna og leigubíla var kveikja að vangaveltum um nafn á þeirri þjónustu, sem lýst er hér að ofan. Auðvelt reyndist að finna henni enska nafnið OmniCab, sem hljómar ágætlega á tungum flestra vesturlandabúa. En heppilegt íslenskt nafn hefir enn ekki fundist og eru þeir sem þetta lesa beðnir að koma með tillögur. ...fin

Heim - Hagræðing - Mótbárur

Uppfært: Saturday, 14 October, 2006 15:16