(slá
ðu á myndina til að fá lífshlaup (CV) Ingvars)

Farsímar og skotvopn

Ég keypti mér farsíma hér um daginn - svokallaðan GSM-síma. Hann er frá heimsþekktum framleiðanda og kortið í honum frá Pósti og síma - allt eins og vera ber. Kunningjarnir voru farnir að horfa á mig niður eftir nefinu á sér af því að ég átti ekki farsíma. Til að halda virðingu minni átti ég nánast ekki annarra kosta völ en að kaupa svona síma. Síminn er ágætur, nema hann virkar illa. Til dæmis er frágangssök að ætla að nota hann austan við Sandskeið - eða suður í Höfnum - en hann er fallegur og fer mér vel.

En vart hafði ég keypt símann fyrr en sjálfsásakanir tóku að þjá mig fyrir að hafa látið undan þessum bölvuðum hégóma. Ég fann ekki til þeirrar gleði, sem ég vil fyllast - og jafnan fyllist - þegar ég eignast fallega hluti. Ekki fann ég heldur haldgóð rök til að réttlæta kaupin. Það jaðraði við að ég skammaðist mín. En þá minntist ég atviks löngu liðinna ára, sem breytti afstöðu minni til farsíma til frambúðar:

Sagan gerðist í Austurlöndum fjær fyrir tuttugu-og-fimm árum. Ég hafði ráðið mig framkvæmdastjóra fyrirtækis, sem seldi vélar á Filippseyjum. Nokkru áður en ég hóf störf hafði afkastamikil vélasamstæða verið seld viðskiptavini að nafni Hector þar í landi. Þegar ég tengdist atburðarásinni hafði sambandi Hectors og vinnuveitanda míns hrakað nokkuð fyrir þá sök að svæðisstjóri fyrirtækisins - Sven að nafni, sænskur þverhaus - og Hector höfðu báðir mjög ákveðnar skoðanir, en þó ólíkar, á því hvernig að verki skyldi staðið.

Filippseyingar eru ekki gefnir fyrir vífilengjur við meðferð slíkra mála og nú var svo komið að ekki var lengur fært að hafa Sven og Hector hvorn í sjónmáli við annan. Lá oftar en ekki við blóðsúthellingum. Þannig varð fyrsta verkefni mitt á Filippseyjum að leiðrétta mikinn misskilning, sem kominn var upp milli tveggja viljasterkra manna af ólíkum toga, og vakti tilhugsunin ein nokkurn óhug. En raunveruleikinn varð ekki umflúinn. Ég herti upp hugann og lét boða Hectori komu mína til að ræða stöðuna.

Verksmiðjan var í steingráum kumbalda í úthverfi Manilaborgar. Við hliðið birtust einkennisklæddir og vopnaðir verðir og vildu vita hver hér væri á ferð. Þegar þeir höfðu fullvissað sig um að allt væri með felldu vísuðu þeir veginn um stiga og ganga hússins, að voldugri harðviðarhurð sem stakk mjög í stúf við umhverfi sitt, en biðu hægverskir uns húsráðandi sýndi sig. Bak við hurðina miklu reyndist vera skrifstofa á stærð við íþróttasal, klædd harðviði í hólf og gólf. Á miðju gólfi stóð efnismikið harðviðarskrifborð í réttu stærðarhlutfalli við skrifstofuna og olíumálverk af húsráðanda í líkamsstærð við enda skrifborðsins, en skotvopn frá tímum Spánverja og aðrir dýrmætir munir þöktu veggina.

Mynd: Skammbyssa

Hector kom sjálfur til dyra. Eftir að hafa vísað mér til sætis gegnt sér við skrifborðið mikla og boðið mér vindil (Manila-vindlar þykja góðir) seildist hann niður í skúffu við hlið sér og dró fram spegilfagra skammbyssu, nokkuð víðhleypta og með harðviðarskafti. Hann vippaði skothylkjahólknum fimlega til hliðar og lét skothylkin sex renna í lófa sér, lagði skothylkin í snyrtilega hrúgu á vinstra horn skrifborðsins - tómt skotvopnið á hægra hornið. Allt var framferði þetta látlaust og vanabundið að sjá og glamrið í málminum áþekkt því sem heyrist í kvikmyndum.

Er skemmst frá því að segja að okkur Hectori samdist. Þó minnir mig að hann hafi farið frá þeirri viðureign betur en mér þóttu efni standa til - enda var hann á heimavelli og allmikið liðsterkari en ég. Að viðræðunum loknum var hylkjunum raðað aftur í skotvopnið og það sett á sinn stað. Við Hector urðum síðar ágætir vinir - og erum enn. Eftir fundinn tjáði hann mér að sýndarleikurinn með skammbyssuna væri ævaforn og táknræn filippínsk hefð, en þar gildir að sá sem tæmir vopn sitt kemur til fundar með friði.

Þegar ég rifjaði upp þessa einstæðu viðkynningu - við mann af gerólíkum toga, sem hefir hefðir fólks síns í hávegum - endurheimti ég sjálfstraust mitt varðandi farsíma. Ég uppgötvaði nefnilega jákvæða hlið á þeim, sem gæti falist í að þegar gengið er til fundar taki hver upp sinn farsíma, slökkvi á honum í augsýn fundarmanna og leggi hann á borðið fyrir framan sig. Með þessu myndu hlutaðeigandi undirstrika áhuga sinn á efni fundarins, en ættu ella ekki að mæta.

Grein þessi birtist í Tímanum 17. Mars 1995

LogoIngvar
(sláðu á skiltið (logo) til að fara Heim)

Glósalir 7, íbúð 704 - 201 Kópavogur
Skrifborð: 5622524 - bréfsími: 5621592 - brjóstvasi: 8961892
tölvupóstur: ingvar@ingvar.is

Endurskoðað: 4/04/09 9:56